top of page
LOGO.png

FRÉTTIR

Almar Ögmundsson kjörinn varaforseti Evrópska hnefaleikasambandsins 

Ísland með sterkari rödd í alþjóðlegum hnefaleikum

Prag, Tékkland – 23. mars 2025

Almar Ögmundsson var kjörinn einn af þremur varaforsetum nýstofnaðs Evrópska hnefaleikasambandsins á fyrsta aðalfundi þess sem haldinn var í Prag þann 23. mars síðastliðinn. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir jafn háu embætti innan evrópskra hnefaleikasamtaka og markar þetta tímamót fyrir Ísland í alþjóðlegu samstarfi á sviði hnefaleika.

Almar, sem hefur verið virkur í þróun og uppbyggingu hnefaleika á Íslandi og Evrópu síðustu ár, gegnir lykilhlutverki í framkvæmdastjórn hins nýja sambands og mun þar með hafa beint aðgengi að stefnumótun og ákvarðanatöku um framtíð hnefaleikaíþróttarinnar í álfunni.

Ísland átti tvo fulltrúa á fundinum, þá Almar Ögmundsson og Jón Birkir Lúðvíksson.


Ræða Almars á stofnþingi í Prag
Ræða Almars á stofnþingi í Prag

Almar og Jón fulltrúar Íslands á stofnþingi European Boxing
Almar og Jón fulltrúar Íslands á stofnþingi European Boxing

Evrópska hnefaleikasambandið heldur fyrsta aðalfund sinn í Prag

Tékkneska hnefaleikasambandið og borgin Prag buðu nýverið til fyrsta aðalfundar hins nýstofnaða Evrópska hnefaleikasambandsins, þar sem fulltrúar 23 landsambanda komu saman og staðfestu formlega stofnun sambandsins.

Á fundinum var dagskrá samþykkt einróma og samþykkt lög sambandsins, sem marka lagalegan og rekstrarlegan grundvöll starfseminnar.




Kosning framkvæmdastjórnar

Einn stærsti þáttur fundarins var kosning framkvæmdastjórnar sambandsins. Lars Brovil frá Danmörku var kjörinn fyrsti forseti sambandsins og markar það upphaf nýrrar stefnu og aukins samráðs innan evrópskra hnefaleika.


Nýkjörin framkvæmdastjórn er eftirfarandi:

Forseti: 

Lars Brovil (Danmörk)

Varaforsetar: 

Marketa Haindlova (Tékkland) Len Huard (Holland) Almar Ögmundsson (Ísland)

Meðstjórnendur:

Nicolina Juric (Króatía) Kirsi Korpaeus (Finnland) Istvan Kovacs (Ungverjaland) Mouloud Bouziane (Frakkland)

Formenn nefnda: 

Lækninga- og lyfjaeftirlitsnefnd: Dr. David McDonagh (Noregur) 

Íþrótta- og keppnisnefnd: Martin Volke (Þýskaland) 

Dómara- og úrskurðarnefnd: Enrico Apa (Ítalía)


Nýkjörinn forseti Lars Brovil lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi samstöðu og samvinnu innan Evrópu, og að nýja sambandið sé mikilvægur þáttur í stækkandi fjölskyldu World Boxing.

Evrópska hnefaleikasambandið stefnir að því að vinna náið með World Boxing, landsamböndum, ólympíunefndum og öðrum álfusamtökum til að tryggja gagnsæi, góða stjórnsýslu, þróun íþróttafólks og sjálfbæra fjármálastjórn.

Fulltrúar á þinginu
Fulltrúar á þinginu






 

Íslenska landsliðið í hnefaleikum hélt til Noregs á Norðurlandamótið um helgina með fjóra keppendur. Erika Nótt Einarsdóttir og Nóel Freyr Ragnarsson sem unnu gull og silfur í fyrra í u19 ára flokki kepptu í fyrsta skipti í fullorðinsflokki (elite) og Björn Jónatan Björnsson og Ronald Bjarki Mánason kepptu í fyrsta skipti á Norðurlandamótinu í u19 ára flokki. Þetta er yngsti keppnishópurinn sem Ísland hefur sent á þetta feykisterka mót og þó að þeim hafi ekki tekist að landa sigri fékkst mjög góð og mikilvæg keppnisreynsla á hæsta stigi.

Hópur Íslands á Norðurlandamóti 2025
Hópur Íslands á Norðurlandamóti 2025

Fyrstur inn í hringinn fyrir hönd Íslands var Nóel Freyr Ragnarsson gegn Kouc Mayuom frá Danmörku í -70 kg flokki en þetta var fyrsta landsliðsverkefni Nóels í fullorðinsflokki (elite). Nóel byrjaði fyrstu tvær loturnar vel en Dananum tókst að vinna loturnar á sitt band er leið á loturnar. Kouc Mayuom sigraði viðureignina á einróma dómaraákvörðun en Nóel sýndi að hann á fullt erindi á þessu sviði og hefur tekið virkilega miklum framförum undanfarið. Daninn endaði á að sigra flokkinn og taka gullið með sér heim.

Nóel Freyr í hringnum
Nóel Freyr í hringnum

Á öðrum keppnisdegi var fyrstur inn fyrir Ísland Björn Jónatan Björnsson gegn Eliar Kolomoichenko frá Finnlandi í U19 -65 kg flokki en þetta var fyrsta landsliðsverkefni hjá Birni Jónatani. Bardaginn byrjaði vel og gerðist mikið hjá báðum aðilum, Björn Jónatan lenti þungum höggum og fékk á sig þung högg. Reynslumunurinn sýndi sig þegar fór að líða á bardagann en Björn Jónatan átti frábæra spretti og verður spennandi að sjá hann í næstu landsliðsverkefnum. Eliar vann svo flokkinn á endanum og var valinn besti hnefaleikarmaðurinn í ungmennaflokki karla. Björn Jónatan getur gengið stoltur frá borði eftir frammistöðuna sína gegn þessum hæfileikaríka mótherja.



Björn Jónatann
Björn Jónatann


Næstur inn í hringinn var síðan Ronald Bjarki Mánason en hann var einnig í sínu fyrsta verkefni með landsliði. Hann keppti við Rida Al-Tamimi í U19 -50 kg flokki og fékk virklega verðugt verkefni en Daninn situr í 5. sæti á heimslista í þeirra aldursflokki. Bardaginn fór vel af stað fyrir Ronald og var fyrsta lotan frekar jöfn heilt yfir en jafnt og þétt tók Rida yfir bardagann og sigraði á endanum á einróma dómaraákvörðun. Mjög flott frammistaða þrátt fyrir mikinn reynslumun og getum við verið stolt af okkar keppanda.





Síðasti keppandinn fyrir Ísland á þessu Norðurlandamóti var Erika Nótt Einarsdóttir gegn Anabelle Bruun frá Noregi í úrslitum -51 kg flokksins. Erika var einnig að þreyta sína frumraun í Elite-flokki með landsliðinu en Erika vann eftirminnilega fyrsta gull í sögu Íslands á mótinu í fyrra, þá í ungmennaflokki, og var hún mjög vel undirbúin fyrir þetta verkefni eftir langa æfingaferð erlendis. Bardaginn byrjaði vel og gekk fyrsta lota fram og til baka en Anabelle gerði vel í að aðlagast Eriku. Anabelle komst í góða forystu í annarri lotu og vann síðan þriðju lotu sannfærandi. Niðurstaðan var einróma sigur til Anabelle Bruun en hún var svo valin besti kvennaboxarinn að móti loknu og augljóst að andstæðingur Eriku var alvöru frumraun.





Keppnishópurinn að þessu sinni var sá yngsti í sögunni. Miðað við frammistöðu má með sanni segja að framtíðin sé björt hjá íslenska landsliðinu í hnefaleikum.

 



Allar myndir birtar með góðfúslegu leyfi frá Mána Hrafnssyni



Í dag hefst fyrsti dagurinn á Norðurlandamóti 2025 í Noregi.


Fyrstu úr okkar hóp er hann Nóel Freyr sem keppir í dag á móti Danmörku.



Fyrstu viðureignir eru að hefjast klukkan 14:00 á íslenskum tíma og er Nóel í viðureign númer 6. Því má gera ráð fyrir honum eftir 15:00


Hópur Íslands á Norðurlandameistaramóti í Noregi 2025
Hópur Íslands á Norðurlandameistaramóti í Noregi 2025

Heading 1

Hnefaleikasamband Íslands

Engjavegur 6, 104 Reykjavík 

Iceland

KT. 640806-0950 

hni@hni.is 

  • YouTube
  • Instagram
  • Facebook
bottom of page