top of page

Vorbikarmót HNÍ 2025 sveik engan!

HNÍ

Vorbikarmóti Hnefaleikasambands Íslands lauk formlega um helgina með verðlaunaafhendingu í húsakynnum Hnefaleikafélags Kópavogs sem hélt einnig 1. umferð mótsins. Hugmyndin að bikarmótinu, sem er nú haldið tvisvar á ári, kemur frá Kolbeini Kristinssyni atvinnu hnefaleikamanni (17-0) og hefur hann haft yfirumsjón með gangi mála.


Það voru frábærar viðureignir og góð stemning í öllum þremur umferðum bikarmótsins sem voru haldnar með 2 vikna millibili frá 25. janúar til 22. febrúar. Keppendum stóð til boða að berjast í mesta lagi þrisvar sinnum og fást 10 stig fyrir að sigra bardaga og 5 stig fyrir tap. Sá sem endar með flest stig eftir þrjár umferðir endar uppi sem sigurvegari mótaraðarinnar í sínum flokki.


Elmar Freyr frá hnefaleikafélaginu Þór sigraði bæði Magnús Kolbjörn og Sigurjón Guðnason í spennandi viðureignum og stóð uppi sem sigurvegari í A-flokki þungavigtarinnar. Eins og aðrir sigurvegarar Vorbikarmótaraðarinnar hefur hann þar með unnið sér inn pláss í hringnum á Konga- og drottningamóti HNÍ og mætir þar sigurvegurum Haustmótaraðarinnar.


Ágúst Davíðsson (Þór) sigraði B-flokkinn með tveimur sigrum gegn Deimantas Zelvys.


Demario Elijah Anderson (HFK) sigraði sinn flokk með 25 stig eftir þrjár umferðir.


Benedikt Gylfi Eiríksson (HFH) sigraði 75 kg flokkinn með 20 dramatísk stig eftir svakalegar viðureignir gegn William Þór (HR) og Ísaki Guðnasyni (HFK). Viðureignin milli Benedikts og Ísaks vakti mikla athygli áhorfenda og skapaði mikla umræðu í hnefaleikasamfélaginu. William Þór og Ísak áttu að mæstast á þriðja keppnisdegi en þeir voru þá báðir með 5 stig eftir sitt hvorn bardagann og ekki nægilega mörg stig eftir í pottinum til þess að jafna stigafjölda Benedikts. Þetta var fyrsta mót Benedikts í fullorðinsflokki.


Annar nýliði sem átti sterka innkomu inn í bikarmótaröðina var Úkraínumaðurinn Vitalii Korshak. Vitalii hefur mikla reynslu af bardagaíþróttum í heimalandinu sínu en kemur til Íslands sem flóttamaður. Vitalii sýndi flotta tilburði gegn Steinari Bergsyni í fyrstu umferð og Dorian James Anderson í annarri umferð. Vitalii sigraði 75 kg B-flokkinn en Steinar og Dorian mættust á þriðja keppnisdegi til að handsama annað sætið og var það Steinar sem hafði sigur úr býtum.


- 70kg flokkurinn vakti mikla athygli en í honum voru þrír keppendur: Nóel Freyr Ragnarsson, Teitur Þór Ólafsson og Viktor Zoega. Liðsfélagarnir frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur, Nóel og Teitur, kusu að keppa ekki við hvorn annan en þeir kepptu hvor viðureignina við Viktor Zoega. Báðum liðsfélögunum tókst að lenda sigri gegn Viktori og endaði flokkurinn því með þrefalt jafntefli þar sem allir keppendur fengu 10 stig.


Það var svo Viktor Örn Sigurðsson (HFK) sem sigraði -85 kg (U17) flokkinn með 20 stig.


Alejandro Cordova Cervera (HFH) sigraði - 75 kg (U19) A-flokkinn


Jakub Biernat frá Þór sigraði - 75 kg (U19) B-flokkinn með þreföldum sigri gegn Hlyn Þorra (HFK).


Jökull Bragi Halldórsson (U17) sigraði -66 kg. B-flokkinn með þreföldum sigri gegn Tomas Barsciavicius


Arnar Jaki Smárason (HFK) sigraði -66 kg (U17) flokkinn með fullt hús stiga.


Volodymyr Moskvychov sigraði - 60kg (U17) flokkinn eftir tvær viðureignir gegn Birni Helga Jóhannssyni (HR).


Alan Alex Szelag Szadurski sigraði - 57kg (U15) eftir tvöfaldan sigur á Sigurbergi frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur



Tristan Styff Sigurðsson sigraði léttasta flokkinn, - 50 kg U15, gegn Hilmari Þorvarðarsyni.


Comentarios


Hnefaleikasamband Íslands

Engjavegur 6, 104 Reykjavík 

Iceland

KT. 640806-0950 

hni@hni.is 

  • YouTube
  • Instagram
  • Facebook
bottom of page