MENNTUN ÞJÁLFARA
Þjáfaramenntun hjá HNÍ mun verða skipt upp í almennan hluta og sérgreinahluta. Almennur hluti fer fram á vegum ÍSÍ og sérgreinahlutinn fer fram á vegum fræðslunefndar HNÍ.
ÞJÁLFARAMENNTUN ÍSÍ
Þjálfaramenntun ÍSÍ er áfangaskipt fræðslukerfi í fimm þrepum þar sem skilgreindar eru kröfur um menntun fyrir ákveðna markhópa. Þetta kerfi er samræmt fyrir allar íþróttagreinar. Fræðslukerfið er í samræmi við samræmdar kröfur sem settar hafa verið fram af "Network of Sport Sciences in Higher Education" (ENSSHE).
Menntun á fyrstu þrem þrepunum, sem kallast almennur hluti, er innan íþróttahreyfingarinnar. Þjálfarastig 4 og 5 eru háskólamenntun. Fyrstu þrjú þrepin eru hvert um sig 120 kennslustundir að lengd: Þeim er ýmist skipt niður í 20 stunda afmarkaðar einingar eða styttri einingar. Ýmist eru þessar einingar almennar og í umsjón ÍSÍ eða sérhæfðar í umsjón sérsambands. Almenni hluti námskeiðanna fer fram í fjarnámi.
Félögin veita nánari upplýsingar um hvenær þjálfaranámskeið ÍSÍ eru haldin og hvernig skal sækja um þau.
ÞJÁLFARAMENNTUN HNÍ
Þjálfaramenntun HNÍ mun verða samtvinnuð þjálfaramenntun ÍSÍ. Sérgreinahluti þjálfaramenntunar ÍSÍ mun verða skipulagður af fræðslunefnd HNÍ í formi námskeiða.
Í ljósi þess að verið er að koma á fót eiginlegri þjálfaramenntun í hnefaleikum á Íslandi er nú í gangi aðlögunartími. Nánari upplýsingar er að finna hjá fræðslunefnd HNÍ.
STJÖRNUR IBA
Þjálfurum stendur til boða að fara á þjálfaranámskeið á vegum IBA sem veitir þeim titil sem IBA þjálfari; 1, 2 eða 3 stjörnur. Þessar stjörnur eru nauðsynleg vottun frá IBA til þess að hafa réttindi til að fylgja keppendum á alþjóðleg mót á vegum IBA, sér í lagi til þess að hafa leyfi til þess að starfa í horni keppanda.
Lágmarkskröfur sem nauðsynlegar eru til þess að fá inntöku á þessi námskeið er að finna á heimasíðu IBA.